Hvað er lýðheilsa?

Lýðheilsa hefur m.a. verið metin út frá góðri heilsu almennings og heilbrigðum lifnaðarháttum eins og lesa má um á vef landlæknis (t.d. https://island.is/lydheilsuvaktin). Lýðheilsa er samheiti yfir bæði heilsuvernd og forvarnir. Í lýðheilsustarfi er litið jafnt til líkamlegrar og andlegrar heilsu með það að markmiði að bæta heilbrigði, líðan og lífsgæði almennings. Vitað er að útivist og hreyfing geta stuðlað að góðri lýðheilsu, eins og margs konar forvarnir og menntun, geðrækt og góð heilbrigðisþjónusta, svo dæmi séu nefnd.
Nánar um verðlaunin

Íslensku lýðheilsuverðlaunin verða veitt í tveimur flokkum, annars vegar til einstaklings og hins vegar til samtaka, stofnunar eða fyrirtækis sem látið hefur gott af sér leiða á þessu sviði.
Hver sem er getur sent tillögur um hver eða hverjir eigi að hljóta þessa viðurkenningu á vefsíðunni lydheilsuverdlaun.is og mun sérstök dómnefnd þá fjalla um tillögurnar og tilnefna þrjá aðila í hvorum flokki til þeirra. Verður svo einn tilnefndur aðili valinn úr hvorum flokki og sæmdur verðlaununum á Bessastöðum í síðari hluta apríl.
Efnt er til þessara verðlauna í samvinnu embættis forseta Íslands við heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, Geðhjálp og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
Fyrri verðlaunahafar

Íslensku lýðheilsuverðlaunin voru fyrst afhent 19. apríl 2023. Þá hlaut verðlaun í einstaklingsflokki Snorri Már Snorrason en verðlaun í flokki starfsheilda Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.

Sjá nánar frétt á vefsíðu embætti forseta Íslands.
Merki lýðheilsuverðlaunanna

Frestur til að senda inn tillögu um verðlaunahafa var til og með 1. apríl 2024.


Netfang skrifstofu forseta Íslands: forseti @ forseti.is.